Líkast til hefur það ekki farið framhjá neinum það sjónarspil sem sett hefur verið á laggirnar er kemur að uppbyggingu atvinnulífsins á Suðurnesjum frá efnahagshruni. Forráðamenn fyrirtækja á svæðinu hafa mætt á borgarafundi og lýst því þar yfir, að þeir og fyrirtæki þeirra væru klár í slaginn, en málin væru strand í stjórnsýslunni. Stjórnmálamennirnir mæta svo á svæðið, yfirleitt eftir slæma útreið í fjölmiðlum, og sverja þetta allt af sér, engin fyrirstaða í stjórnsýslunni. Á fundi með Iðnaðarráðherra og formanni fjárlaganefndar í Garði var fullyrt að ekkert stæði í vegi fyrir því að hefja framkvæmdir við álver í Helguvík annað en það að fjármögnun framkvæmdaraðila væri ekki í höfn. Sjálfur hef ég setið almenna fundi, þar sem framkvæmdastjóri Norðuráls hefur fullyrt að ekkert stæði í vegi af þeirra hálfu, en hinsvegar fengjust ekki tilskilin leyfi frá ríkisvaldinu. Ekki veit ég hver fer með rangt mál þar, en hitt er á hreinu að þeirri stjórn sem nú situr er í nöp við stóriðju, og þá sér í lagi álver í Helguvík.
Það hafa sjálfssagt flestir fullan skilning á því, að það einstigi sem stjórnvöld þurfa að þræða eftir efnahagshrunið, er bæði bratt, grýtt og alskyns hindrunum stráð. Flestir hafa líka fullan skilning á því að ekki sé hægt að rjúka upp til handa og fóta bara af því að einhverjum dettur í hug að gera eitthvað. En það sem sennilega allir hér á suðurnesjum geta ekki með neinu móti skilið er þessi einbeitti vilji ráðamanna til að, ef ekki beinlínis slátra, þá allavega leggja í salt, allar hugmyndir manna hér um eflingu atvinnulífs og þar með sporna við enn meira atvinnuleysi og fylgifiskum þess.
Engu minni skilning hafa margir á þeim kynlega áhuga stjórnvalda að gera einni af fáum atvinnugreinum sem lifðu efnahagshrunið af, erfiðar um vik, sjávarútveginn. Sem þrátt fyrir allar fullyrðingar um annað er enn stór og umsvifamikil atvinnugrein á Reykjanesi. Sjávarútvegsráðuneytið, semur á færibandi nýjar reglugerðir, sem miða að því að hefta framsalið á leigukvóta og þar með bregða fæti fyrir þau fjölmörgu fyrirtæki hér á svæðinu, sem meira eða minna reiða sig á leigukvóta. Þessi fyrirtæki eru með hundruðin manna á launskrá, má þar t.d. nefna Nesfisk ehf. í Garði, sem er með um 300 manns á launaskrá og leigir til sín u.þ.b. 4-5000 tonn á ári. Þetta er um 1/3 þess afla sem fyrirtækið veiðir og vinnur á ársgrundvelli og má öllum ljóst vera að óbreyttur rekstur getur varla gengið upp nema fyrirtækið geti óheft leigt til sín þær aflaheimildir sem þurfa þykir. Nesfiskur er ekki eina fyrirtækið á hér sem leigir til sín aflaheimildir, má þar nefna Nýfisk ehf., H. Pétursson ehf., Grímsnes ehf. og fjöldann allan af sambærilegum og minni fyrirtækjum. Það er algjör óþarfi af stjórnvöldum að reyna fjölga atvinnulausum í landinu með handafli. Þess í stað ættu þau nú þegar að auka aflaheimildir í helstu nytjastofnum og um leið heimila 100 % framsalsrétt. Látum fiskistofnana bera með okkur auknar byrgðar þjóðarbúsins eftir útrásarævintýrið mikla.